Menntamál - 

11. apríl 2017

Ekki nógu góðar hugmyndir á Íslandi?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ekki nógu góðar hugmyndir á Íslandi?

Guðmundur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Google Assistant, flutti erindi á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins og Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í mars. Hvað segir Google um Ísland? var yfirskrift fundarins en þar velti Guðmundur því m.a. upp hvort það væri of mikið af hugmyndum á Íslandi sem væru ekki nógu góðar. Of mikilli orku væri því eytt í vondar hugmyndir í stað þess að þróa áfram þær sem eru virkilega góðar og geta skilað miklum ávinningi.

Guðmundur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri vöruþróunar hjá Google Assistant, flutti erindi á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins og Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins í mars. Hvað segir Google um Ísland? var yfirskrift fundarins en þar velti Guðmundur því m.a. upp hvort það væri of mikið af hugmyndum á Íslandi sem væru ekki nógu góðar. Of mikilli orku væri því eytt í vondar hugmyndir í stað þess að þróa áfram þær sem eru virkilega góðar og geta skilað miklum ávinningi.

Guðmundur, sem flestir þekkja sem Gumma í Google, er sá Íslendingur sem þekkir hvað best til nýsköpunar tæknirisanna Google og Apple. Hann lýsti því nýsköpunarumhverfi sem hann býr við hjá Google í Kísildalnum í Kaliforníu og hvað Íslendingar geti gert betur. Jafnframt rýndi hann í áskoranir Íslands gagnvart þeirri tæknibyltingu sem stendur yfir í heiminum á sviði raddstýringar alls kyns tækja og tóla.

Guðmundur hefur unnið að þróun og innleiðingu tækninýjunga í Kísidalnum í Bandaríkjunum frá árinu 2005. Hann tók þátt í hönnun og innleiðingu á Google Maps fyrir farsíma, hann starfaði hjá tæknirisanum Apple sem hluti af hönnunarteymi gervigreindarforritsins Siri. Árið 2012, stofnaði Guðmundur sitt eigið fyrirtæki EMU sem notaði gervigreind til að skilja SMS-samtöl notenda. Árið 2014 keypti Google fyrirtækið af Guðmundi og hefur hann leitt viðskiptaþróun Google Assistant frá þeim tíma.

Guðmundur tel­ur grunn­inn að vel­gengn­inni á svæðinu vera hágæða mennta­kerfi sem fjár­fest hef­ur verið í.

Fjárfestið í menntakerfinu

Meginskilaboð Guðmundar voru þau að stórauka þurfi fjárfestingu í menntakerfinu á Íslandi og tryggja stöðugleika í efnahagslífinu til að laða erlenda fjárfestingu til landsins. Mbl.is fjallaði um fundinn og lærdóminn sem Íslendingar geta lært af lífinu í Kísildalnum.

„Guðmundur tel­ur grunn­inn að vel­gengn­inni á svæðinu vera hágæða mennta­kerfi sem fjár­fest hef­ur verið í. Það sé lang­tíma­fjár­fest­ing sem hafi skilað sér vel inn í ný­sköp­un og vöxt. Þá bend­ir hann á ná­lægð at­vinnu­lífs­ins, frum­kvöðla, mennta­stofn­ana og fjár­festa. All­ir séu þeir sam­an­komn­ir á litlu svæði og tengslamynd­un verður þannig auðveld­ari.“

Það er ekki nóg að allir gangi um með farsíma í vasanum til að teljast tæknivædd þjóð.

Vísir fjallaði einnig um fundinn og ræddi við Guðmund sem sagði ekki einfalt mál að bjarga íslenskunni á tölvuöld. Smæð þjóðarinnar væri vandamál og það væri ekki forgangsmál í dag hjá erlendum tæknirisum að kenna tölvum og tækjum að tala og skilja íslensku.  „Ísland er neðarlega á listanum, það er bara kaldur raunveruleiki,“ segir Guðmundur og segir innviði skorta. Það þurfi t.d. að byggja upp innviði á Íslandi fyrir rafræna markaðssetningu og sölu á vörum og þjónustu. Íslendingar séu aftarlega á tæknimerinni, það sé ekki nóg að allir gangi um með farsíma í vasanum til að teljast tæknivædd þjóð.

Fjárfest í framtíðinni

Guðmundur sagði á fundinum að raddstýring Google væri fimm mánaða gömul tækni á markaði en það tæki 10-20 ár að fullþróa hana. Ísland hafi tækifæri til þess að taka þátt í byltingunni frá upphafi en áskoranirnar séu miklar.

Samtök atvinnulífsins ásamt Samtökum iðnaðarins og nokkrum fjármálafyrirtækjum ákváðu á síðasta ári að leggja ríflega 5 milljónir króna á móti jafn hárri fjárhæð frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu til að undirbúa tímasetta og vel skilgreinda aðgerðaáætlun að verkefnislýsingu um uppbyggingu á innviðum íslenskrar máltækni.

Í kjölfarið voru veittar 50 milljónir króna á fjáraukalögum 2016 til átta mánaða undirbúningsverkefnis þar sem lögð er áhersla á kortlagningu tækni á sviði máltækni, stefnumörkun og vali á tæknilegri útfærslu fyrir íslensku, stöðumati á gagnasöfnum fyrir samhliða málheildir ásamt fjárhags- og verkáætlun til fimm ára fyrir markáætlun um íslenska máltækni sem á að ljúka með, skilgreindri verkefnislýsingu, aðgerðaáætlun og skilgreiningu fjárfestingaráætlunar. Verkefnið er undirbúningur fyrir uppbyggingu tæknilegra innviða fyrir íslenska máltækni.

Eðlilegt næsta skref er að efnt verði til fimm til sjö ára átaks til að efla máltækni, menntun á því sviði, rannsóknir og tækniþróun. Samtök atvinnulífsins hafa kallað eftir því að sett verði af stað sérstök markáætlun þar sem hvatt er til samstarfs fyrirtækja, stofnana og háskóla þannig að unnt verði að sækja um styrki til einstakra verkefna sem rúmast innan þessa sviðs gegn ákveðnu mótframlagi.

Fjörlegar umræður

Að loknu erindi Guðmundar ræddu Ragnheiður H. Magnúsdóttir og Þorvarður Sveinsson um stöðuna á Íslandi og tækifærin framundan. Ragnheiður er formaður tækninefndar Vísinda- og tækniráðs og formaður Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja. Ragnheiður er einnig varaformaður Tækniþróunarsjóðs og er í framkvæmdateymi Marel (Business Manager Inside Sales). Þorvarður er yfirmaður stefnumótandi verkefna hjá Vodafone. Pétur Þ. Óskarsson, stjórnarmaður í Amerísk-íslenska viðskiptaráðsins setti fundinn.

SA og AMÍS þakka fjölmörgum gestum sem sóttu fundinn fyrir komuna.

Samtök atvinnulífsins