Fréttir - 

11. desember 2017

Ábyrgt atvinnulíf

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Ábyrgt atvinnulíf

Nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir Samtaka atvinnulífsins. Mikið veltur á því að gott samstarf takist um kjarastefnu á vinnumarkaðnum. Nauðsynlegt er launahækkanir næstu ára byggi á getu gjaldeyrisskapandi greina t.d. útflutningsfyrirtækja til að takast á við kostnaðarhækkanir og að þær séu í samræmi við framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Til að standa undir 3% hagvexti næstu 20 ár þarf íslenskt þjóðarbú að auka útflutning um 1000 milljarða. Það jafngildir um einum milljarði á viku í nýjar útflutningstekjur næstu tvo áratugi. Ákvarðanir og fjárfestingar í dag eru útflutningstekjur í framtíðinni.

Nýrri ríkisstjórn fylgja góðar óskir Samtaka atvinnulífsins. Mikið veltur á því að gott samstarf takist um kjarastefnu á vinnumarkaðnum. Nauðsynlegt er launahækkanir næstu ára byggi á getu gjaldeyrisskapandi greina t.d. útflutningsfyrirtækja til að takast á við kostnaðarhækkanir og að þær séu í samræmi við framleiðniaukningu í atvinnulífinu. Til að standa undir 3% hagvexti næstu 20 ár þarf íslenskt þjóðarbú að auka útflutning um 1000 milljarða. Það jafngildir um einum milljarði á viku í nýjar útflutningstekjur næstu tvo áratugi. Ákvarðanir og fjárfestingar í dag eru útflutningstekjur í framtíðinni.

Umhyggja fyrir umhverfinu, sjálfbær nýting auðlinda og virðing fyrir náttúrunni fer saman við ábyrgð í rekstri fyrirtækja.

Í stjórnarsáttmálanum er talinn upp fjöldi mála sem stjórnvöld hyggjast vinna að á næstu árum. Í umhverfismálum er mikilvægt að haft verði samráð við atvinnulífið um helstu breytingar en almennt finnast í atvinnulífinu lausnir á helstu viðfangsefnum sem tengjast umhverfi manna og náttúru landsins.  

Samtök atvinnulífsins telja að umhyggja fyrir umhverfinu, sjálfbær nýting auðlinda og virðing fyrir náttúrunni fari saman við ábyrgð í rekstri fyrirtækja og sé grunnur þess að fyrirtækjum geti gengið vel. Að nýta betur aðföng og draga úr úrgangi og sóun er stór þáttur í rekstri þeirra og forsenda þess að vel gangi. Þannig starfa fyrirtækin í sátt við umhverfi sitt og skapa verðmæti, ekki bara fyrir eigendur og starfsmenn heldur samfélagið í heild sem skiptir verulegu máli.

Loftslagsmál eru með stærstu viðfangsefnum heimsins í dag. Um það verður ekki deilt og Samtök atvinnulífsins settu loftslagsmálin rækilega á dagskrá á Umhverfisdegi atvinnulífsins í haust.

Sama er hvort litið er til fyrirtækja í sjávarútvegi, stóriðju, samgöngum eða annarri þjónustu; öll eru þau með metnaðarfull áform í umhverfismálum.

Nýsköpun, tækniþróun og stöðug framfarasókn fyrirtækja mun tryggja að smám saman í fyllingu tímans koma fram lausnir sem hjálpa við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og um leið að gera okkur kleift að ná þeim metnaðarfullu markmiðum sem stjórnvöld hafa sett fram á svipað og langflest ríki heims hafa gert í kjölfar Parísarsamkomulagsins. Enginn vafi er á að fyrirtækin hér munu taka þátt í að uppfylla þessi markmið. Sama á við um aukinn útflutning íslensks atvinnulífs. Auknar fjárfestingar, meiri sérhæfing og þjálfun starfsmanna ásamt stöðugum tækniframförum munu varða leiðina að vexti útflutnings á íslenskum afurðum og hugviti. Það er grundvöllur verðmætasköpunar þjóðarbúsins.

Á umhverfisdegi atvinnulífsins birtu fjölmörg fyrirtæki dæmi um þann árangur sem þegar hefur náðst og stórfelld áform um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum og áratugum. Sama er hvort litið er til fyrirtækja í sjávarútvegi, stóriðju, samgöngum eða annarri þjónustu; öll eru þau með metnaðarfull áform í umhverfismálum.

Íslendingar búa við gnægð endurnýjanlegra orkulinda og hafa borið gæfu til að auka nýtingu vatnsafls og jarðvarma jafnt og þétt  undanfarna áratugi. Þannig hefur öll efnahagsstarfsemin hér á landi orðið mun umhverfisvænni en ella. Og hér á landi eru framleiddar afurðir þar sem annars væru nýtt kol til orkuframleiðslunnar.

Enn eru hér á landi töluverð ónýtt tækifæri til umhverfisvænnar orkunýtingar bæði vatnsafls og jarðvarma en eins með því að nýta orku vindanna sem stöðugt blása.

Það er þó mikilvægt að ganga fram af varúð og nýta þá reynslu sem þegar hefur orðið til en ekki er vafi á orkunýting og umhverfisvernd fara ágætlega saman eins og reynslan sýnir og geta hjálpað til við að tryggja hér ákjósanleg lífskjör til langrar framtíðar.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í desember 2017.

Samtök atvinnulífsins